top of page

 

Hér í Fljótstungu má leigja veiðistöng og ganga að Dalfossi en undir honum má oft næla í ágætis silung.

 

Ef þið finnið fallega, skrítna, stórmerkilega eða fáránlega steina megið þið endilega bæta þeim í steinasafnið okkar heima á bænum!

 

Ef þið heimsækið Fljótstungu í Ágúst er hægt að ganga upp í hæðir bæjarins og tína bláber.

 

Í september er hin árlega Fljótstungurétt en hún er sérstök að því leyti að hún er elsta hraunhlaðna rétt Íslands sem enn er í notkun!

 

Nálægt Fljótstungu má finna Surtshelli, Hraunfossa og Barnafoss, Húsafell, Arnarvatnsheiði og Langjökul. Enn neðar í sveitina liggur Deildartunguhver, Reykholt og Háafell með sínar yndislegu geitur.

afþreying

"Þetta er leið sem sárafáir hafa farið aðrir en landeigendur, sem smala þetta land á haustin. Leiðin er ófær öllum farartækjum nema hestum postulanna. Neðri hluti landsins tilheyrir Gilsbakka, sá efri Fljótstungu. Þar sem lagt er upp frá gömlu Barnafossbrúnni blasir við Gilsbakki, fæðingarstaður Gunnlaugs Ormstungu, hátt upp í hlíðinni Hvítársíðumegin. Næsti bær fyrir innan er Kolsstaðir, þar sem Óðal feðranna var tekin upp, síðan landnámsbærinn Hallkelsstaðir, Þorvaldsstaðir og Fljótstunga.

 

Á hægri hönd, handan Hvítár, er skógi vaxinn ás, Hraunsás. Innar sést Húsafell og stórkostlegur fjallahringur, Ok, Útfjall, Bæjarfell, Selfjall, Langjökull, Hafrafell, Eiríksjökull og Strútur. Fram undan er Tungan, sem er augnayndi hvar sem á hana er litið. Í henni skiptast á gular og rauðleitar líparítskriður og birkiskógur. Að norðanverðu setja fagurmótuð klettabelti, Hrafnabjörg og Fálkaklettur svip á fjallið. Þessi hluti Hallmundarhrauns er kallaður Gráhraun. Ofar tekur við Háahraun og síðan Fljótstunguhraun. Hæðarmunur á Barnafossi og áfangastað móts við Fálkaklett er u.þ.b. 100 metrar. Leiðin upp með ánum er svo falleg, að freistandi er að nota efsta stigs lýsingarorð. Frá miðjum júní til septemberloka er gróðurfar mjög fallegt og fjölbreytt. Birki er áberandi mestalla leiðina og flestar lyngtegundir, bláberja-, krækiberja-, hrútaberja-, sortu- og beitilyng. Ofar, frá Kálfhólum, er einnig mikið af eini og gulvíði. Þegar kemur fram í ágúst setur bleikrautt beitilyngið svip á stór svæði og skærrauðir lúsamulningarnir á sortulynginu verða áberandi. Í haustlitunum er svæðið líkast rósagarði yfir að líta, t.d. séð af Hraunsásnum.

 

Frá Barnafossi inn að Gunnlaugshöfða, (þar sem einn hellismanna var drepinn samkvæmt sögunni) eru 1.5 km. Hér er nokkuð þröngt um Hvítá milli hraunsins og Hraunsáss, sem er skógi vaxin hæð handan áarinnar. Þarna er frekar greiðfært helluhraun. Skömmu áður en komið er að Gunnlaugshöfða kemur bugur á ána og myndast þar talsverð eyri og vatnsmikil uppspretta, Gunnlaugshöfðakvísl. Með kvíslinni og undir hraunbrúninni er fjölbreyttur gróður og blómgresi. Gunnlaugshöfði er endinn á Hraunsásnum, sem áin hefur sniðið af honum. Höfðinn er vaxinn þéttum skógi. Skammt austan höfðans er Halafoss. Hann hefur lækkað og breitt úr sér á undanförnum árum. Þarna rennur áin með hraunjaðrinum að norðan, en að sunna eru lágar eyrar. Þá kemur dálítil eyri, sem nefnist Litlaeyri. Inna af henni er þéttur skógur. Inna þess er stærri eyri, Stóraeyri. Norðan hennar er þéttur skógur. Þar kemur upp lind, sem rennur í Hvítá milli eyrar og hrauns. Innst á Stórueyri tekur við Hólarófa neðri. Hún er gamall, uppgróinn farvegur, skógi vaxinn. Hann liggur fyrst í norður en vinkilbeygir síðar austur í Kálfhóla, en við austurenda Stórueyrar er komið í námunda við fegursta hluta Húsafellsskógar, Oddauppspretturnar, sem eru handan árinnar.

 

Þarna beygir Hvítá að Tungunni. Á þessari leið er fallega uppspretta á móti Oddunum og skógi vaxnir höfðar við ána. Skammt fyrir neðan Tungusporðinn, þar sem Hvítá og Norðlingafljót sameinast, er Hundavað og Hundavaðsfoss, 6 m hár. Við Tungusporðinn hækkar landið nokkuð. Hér er óvenju skjólsælt, skógi vaxið svæði með hólmum í fljótinu og litlum lænum, sem vatn rennur um í leysingum en lítið á sumrin. Hér er fjölbreyttur gróður og þéttur skógur á köflum. Héðan fylgjum við fljótinu upp með Tungunni. Í þessum hluta hennar er Þjófaborg og innar Rauðakúla. Síðan tekur við Smiðjuás, stórvaxinn skógur á íslenskann mælikvarða. Nú komum við í Kálfhóla/Hóla norðan fljótstins. Þeir eru skógi vaxið svæði, uppgróinn farvegur eftir fljótið. Þarna er óvenju gróðursælt, vöxtulegur skógur, fallegur undirgróður og einstök veðursæld. Hólarnir eru u.þ.b. 1 km langt svæði meðfram fljótinu. Ofann Hólanna, hækkar hraunið talsvert, og hér heitir það Háahraun. Nú tekur við mikill og ört vaxandi skógur upp með fljótinu, Efri-Hólarófa, en norðan hennar er nokkuð slétt, mosavaxið helluhraun með birkigróðri og lyngi í hraunbollum.

 

Hjá Norðurkasti, sem tekur við af Smiðjuásnum og er brattur, gulur líparítveggur meðfram fljótinu handan ár, sveigir fljótið frá Tungunni. Milli fljóts og hrauns er nokkuð breið landspilda, Norðurkastshólmi. Áfram er hér skógarkjarr en meira graslendi og fjölbreyttari gróður. Kalmanstungumegin tekur Engjahraunið við, skógi vaxið hraun, mjög hlýlegt. Innan þessa taka við víðáttumiklar valllendisflatir, Norðurengjar. Yfir þeim gnæfir Tungan. Hrafnabjörg heitir neðsti hluti hinna fagursköpuðu klettabelta, sem prýða norðurhlíð Tungunnar. Þar sem við stöndum norðan fljóts vekur fljótið mikla athygli. Her eru fjöldamargir undurfagrir fossar og flúðir. Áin rennur í kvíslum og milli þeirra eru hólmar með sérlega blómlegum gróðri. Fegurra vatnsfall en Norðlingafljót er vandfundið. Hér hækkar landið enn og brátt erum við komin upp úr þessum hluta hraunsins, upp á Stórulágarbarð. Hér eru íðilfagrir hraunbollar, t.d. Stórulág. Lengra til vinstri eru grösugar, rennsléttar flatir umkringdar skógivöxnum hraunjaðri, Leirkimar. Þeir hafa orðið til við framburð fjótstins í vorleysingum. Upp af þeim taka við Flatirnar og síðan Lambhólmi á hægri hönd. Her eru einnig fallegar flúðir í fljótinu. Á vinstri hönd er Hrískimi, sem endar við næsta hraunhaft, Snös.

 

Úti í hrauninu, í 100-200 metra fjarlægð frá hraunjaðrinum er Fljótstungurétt, ein af fáum réttum hér á landi sem er hlaðin úr hraungrýti. Þessi var hlaðin um 1850. Þegar flest var, var hér réttað 12 þúsund fjár, en réttin er skilarétt fjár af Arnarvatnsheiði. Nú er fjárfjöldinn kominn niður í fjögur þúsund eða svo. Féð er eign Reykdæla og Hálssveitinga, sem beita heiðina yfir sumarið.

 

Nú fer að styttast að brúnni yfir Norðlingafljót, og hér erum við komun á þjóðveginn. Framundan til vinstri er Fálkaklettur innst í Tungunni með sitt bogamyndaða klettabelti og fjölbreytt svipbrigði eftir birtuskilyrðum hverju sinni. Þetta er talinn þriggja tíma ganga, en við mælum með því að fólk ætli sér a.m.k. helmingi lengri tíma til að njóta fegurðarinnar sem best.

 

Árni Þorsteinsson"

"Gönguleið frá Hraunfossum upp með Hvítá og Norðlingafljóti (10km)"

- eftir Árna Þorsteinsson, fyrrverandi bónda í Fljótstungu

gönguleiðir í Fljótstungu

Fljótstunga er umkringd fallegri og ósnortinni náttúru þar sem göngufólk af öllum gerðum geta fundið sinn stað til að á í ró og næði og dást að Langjökli, Eiríksjökli, Hallmundarhrauninu, Tungu, Strút og vötnum Arnarvatnsheiði.

 

Bláberjadalur, Sandfjöllin með sínum ótrúlega sérstöku steinmyndunum og Dalfoss, hinn litli en afar fallegi foss með silungi í fossavatninu litla, er sumt af því sem má uppgötva á göngu um hæðir Fljótstungu.

 

Hér fyrir neðan má finna slóð til að niðurhala einföldu korti af nokkrum af gönguleiðunum í Fljótstungu.

 

GÖNGULEIÐIR - KORT

Mynd af kortinu

bottom of page